Haruki Murakami

Haruki Murakami

Kærastinn minn manaði mig til að setja þessa grein á internetið. Honum finnst ég of löt að birta textana mína. Ég var svo heppin að fá úthlutað því verkefni á bókmenntafundi PowerTalk deildarinnar minnar, Fífu í Kópavogi, að segja frá uppáhaldsrithöfundinum mínum sem í augnablikinu er Haruki Murakami. Hér kemur upphaflegi textinn nokkurn veginn óritskoðaður. Heimildaskrá er aftast en því miður notaði ég ekki tilvísanir á meðan ég skrifaði – mér fyrirgefst í þetta sinn.

 Dáður

“Það er ekkert til sem heitir fullkomin skrif, ekki frekar en að til er eitthvað sem heitir fullkomin örvænting” er ein af ódauðlegum setningum japanska rithöfundarins Harukis Murakamis.

Haruki Murakami er 67 ára gamall. Hann skrifaði fyrstu bókina við eldhúsborðið heima hjá sér um þrítugt eftir uppljómun sem hann varð fyrir á hafnaboltaleik um að hann gæti kannski skrifað. Síðan hafa komið út eftir hann um 30 styttri og lengri sögur, þar af hafa sex verið þýddar á íslensku, bíómyndir verið gerðar eftir fimm þeirra og allavega sex leikrit verið sett á svið víða um heim.

Nokkur síðustu ár hefur verið veðjað á Murakami fyrir Nóbelsverðlaunin í bókmenntum og margir hafa orðið reiðir þegar þau hafa í öll skiptin hlotnast öðrum, ekki síst í Japan þar sem hinir fjölmörgu aðdáendur hans kalla sig Harukista. Hann segist sjálfur ekki vilja verðlaunin. Hann hlær og segir: “Nei, það mundi þýða að ég sem rithöfundur væri búinn að vera”. Hefur hann þó hreppt mörg önnur alþjóðleg verðlaun – og neitað að taka við einum „af prinsippástæðum“. Þrír bandarískir háskólar hafa sæmt hann nafnbótinni heiðursdoktor og tímaritið Time valdi hann árið 2015 sem einn af 100 áhrifamestu mönnum heims.

Persónan

Haruki Murakami útskrifaðist úr leiklist í háskóla í Tókýó 26 ára gamall. Hann er sonur tveggja bókmenntafræðinga sem ætluðu honum framtíð í Mitsubishi verksmiðjunni eftir nám. Þess í stað keypti hann jazzbar með konunni sinni og lét svo 29 ára gamall verða af því að skrifa sína fyrstu bók Hear the wind sing, meðfram rekstrinum, og sú næsta kom svo tveimur árum síðar. Báðar fengu þær það góðar viðtökur að 32 ára lét hann verða af því að selja barinn og hefur skrifað síðan, ásamt því að kenna og stunda rannsóknir í bandarískum háskólum.

Hann er reglumaður sem vaknar kl 4 á morgnana og skrifar af miklum sjálfsaga til kl. 15/16. Eftir það æfir hann maraþonhlaup og gluggar í gamlar vínylplötur. Hann mætir svo heim til konunnar sinnar aftur um kl 21 á kvöldin. Hann segir lífsnauðsynlegt að þjálfa líkamann því að skriftirnar krefjist líkamlegs styrks. Í hvert skipti sem hann setjist við skriftir þurfi hann í huganum að opna þunga hurð inn í einkalandið sitt. Það er land á mörkum raunveruleikans þar sem hann er einn í sambandi við persónur sem stríða við yfirþyrmandi tilfinningar, sem hann aftur lýsir af snilld með aftengingu og hlutleysi. Hann lýsir þessum heimi sem einmanalegum og drungalegum og að það sé á vissan hátt hættulegt fyrir hann að gera þetta á hverjum degi. Fullum hálsi staðhæfir hann að daglegt líf sitt sé hrútleiðinlegt og að engin orka sé aflögu fyrir annað en þetta.

Aftur á móti hefur þessi stíll skapað honum sess költ rithöfundar í bókmenntaheiminum.

Í bókum hans er ein aðalsöguhetjan oft ungur einfari, bældur, frekar einmana maður sem klæðir sig ósmekklega og er leiðinlegur og óvinsæll, á oft engaMyndaniðurstaða fyrir haruki murakami wife vini eða aðeins einn vin sem hann missir svo sambandið við. Flottar konur hrífast af honum en honum leiðast félagslega hæfar konur. Hann á sér viðhald, oftast gifta konu og er gjarnan með þráhyggju út í æskuást sem aldrei neitt varð úr en hittir gjarnan ungar konur sem minna hann svo á æskuástina.

Þetta vekur óneitanlega forvitni út í hans eigið ástarlíf en þar er nákvæmlega ekkert að finna. Frá því um tvítugt hefur hann verið með sömu konunni, Yoko Murakami. Hún talar aðeins japönsku, klæðir sig í drungaleg föt, málar sig ekki og mynd af henni brosandi finnst ekki opinberlega. Nákvæmar lýsingar hans á vexti og klæðaburði kvenna í bókum hans eru í hrópandi andstöðu við þetta. Eiginkona hans er þó einmitt sú sem ritskoðar bækurnar hans og er víst harður dómari. Engar upplýsingar eru til um ástkonur eða neitt vafasamt í lífi Murakamis.

 

Ritstíll

Bækur Harukis Murakamis eru litaðar af vestrænum stíl og hefur hann verið gagnrýndur mikið í Japan fyrir það, t.d. má sjá mikil áhrif frá Nietsche, Kafka og Shakespeare í bókum hans.

Það má lýsa skrifum hans sem nokkurs konar töfraraunsæi þar sem skilin á milli þess raunverulega og óraunverulega eru oft óljós. Á stundum hverfur lesandinn inn í súrrealískar aðstæður og fer að efast um eigin raunveruleika. Það var við lestur þannig bókar eftir Murakami sem ég beit á agnið, bókarinnar 1Q84. 1Q84 er 1000 blaðsíðna bók sem tók hann aðeins þrjú ár að skrifa. Hún greip okkur kærustuparið bæði svo að við rifumst um það hver ætti rétt á því að lesa hana fyrst. Bókin fjallar um heim þar sem fólk í vissri andlegri þróun fer smám saman að sjá tvö tungl. Glæsikvendi eitt sem er einkaþjálfari og morðingi í hlutastarfi fer niður langan stiga – sem kemur svo í ljós að var rangur stigi – og lendir þar í heimi þar sem hættuleg klíka er að ná öllum völdum. Óljóst er hins vegar hverjir eru í klíkunni. Þetta gæti verið leiksvið 1984 Georges Orwells – eða ekki? Við hjónaleysin erum eiginlega alveg brjáluð yfir því að ekki sé framhald á bókinni og oft finnst okkur við sjá tvö tungl á himni.

Murakami notar mikið endurtekningu og sveiflast á milli nákvæmra lýsinga af aðstæðum og draumkenndrar yfirferðar í tímaleysi. Þessi stíll leyfir undirtón og gefur þá tilfinningu að höfundurinn sé mikill hugsuður. Murakami sjálfur hvorki neitar því né jánkar.

Flestar bækurnar hans eru skrifaðar í fyrstu persónu, þar sem honum finnst erfitt að skrifa í þriðju persónu – þá finnst honum hann vera að setja sig ofar persónunum og vera algjör hrokagikkur.

Algengt minni í bókum hans er járnbrautarstöðvar og klassísk lög, eyru á fólki, kettir, brunnar og fleira sem skapar ítrekað aðstæður sem skipta miklu máli fyrir framvinduna.

Á eftir 1Q84 las ég bækurnar Spútnik ástin og Norwegian wood. Nú rétt fyrir jólin lauk ég við Colourless Tsukuri and his years of pilgrimage sem seldist í tveimur milljónum eintaka í Japan sömu vikuna og hún kom út. Næst á dagskrá er bókin Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup þar sem hann skrifar um fyrstu skrefin á ritvellinum.

 

Einfari

Murakami er einfari af Guðs náð og hefur oft sagt að það sé alveg óvart sem hann er umkringdur fólki, því að löngunin sé alltaf að vera einn. Rithópar hafa aldrei höfðað til hans og honum leiddist hópar á skólagöngu sinni. Þær vinsældir sem ríkja um skrifin og hann sjálfan vekja honum furðu og hann heldur sér á jörðinni: ,,Ég er ekki listamaður, ég er bara gaur sem kann að skrifa” og ,,Ég er eins og litli ljóti andarunginn, nema að ég mun aldrei breytast í svan”. Margar setningar hans eru orðnar ódauðlegar eins og ,,Ef þú lest aðeins bækur sem allir hinir eru að lesa geturðu aðeins hugsað það sem allir hinir eru að hugsa” og ,,Þegar stormurinn er liðinn hjá þá manstu ekki hvernig þú komst í gegn, hvernig þú lifðir af. Þú munt kannski ekki einu sinni vera viss hvort að stormurinn sé raunverulega liðinn hjá. Eitt er þó víst og það er að þú kemur ekki út úr storminum sama manneskjan og þú varst áður. Það er nefnilega það sem stormurinn snýst um”. Nú til dags er svalt að vitna í Haruki Murakami.

Hægt og bítandi mun ég lesa meira eftir kappann. Persónuleikinn, þessi gríðarlega einbeiting og sjálfsagi, stíllinn og sú dulúð sem ríkir hvort tveggja um hann sjálfan og skrifin hafa allavega náð tökum á mér. Kannski blundar líka í mér löngun til að eiga svona leiðinlegt líf. Ótrúlegt en satt, eitthvað í mér hefur sligandi þunga orku risaeðlu og drunga ísbjarnar sem hleypur ekki nema í neyð. Það reynir oft að taka yfir og þá er eins og ég hafi meira leyfi til að fara inn í leiðindin að vita af fólki eins og Murakami. Kannski finnst mér líka eftirsóknarverð sú lífsregla hans að vinsældir skipti ekki máli.

 

Heimildir

Brockes, E. (14. október 2011). Haruki Murakami: I took a gamble and survived. Sótt 6. janúar 2017 af https://www.theguardian.com/books/2011/oct/14/haruki-murakami-1q84

Good reads (2017). Haruki Murakami > Quotes. Sótt 6. janúar 2017 af https://www.goodreads.com/author/quotes/3354.Haruki_Murakami

Haruki Murakami stuff: A Murakami fan blog (7. ágúst 2011). Haruki Murakami‘s wife. Sótt 6. janúar 2017 af http://www.haruki-murakami.com/post/7380697162/haruki-murakamis-wife

Kelts, R. (2012). The Harukists, disappointed. Sótt 6. janúar 2017 af http://www.newyorker.com/books/page-turner/the-harukists-disappointed

Murakami, H. (2015). Haruki Murakami: The moment I became a novelist. Sótt 6. janúar af http://lithub.com/haruki-murakami-the-moment-i-became-a-novelist/

Murakami, H. (2017). Haruki Murakami – official site. Sótt 6. janúar 2017 af http://www.harukimurakami.com/

Ono, Y. (2015). Haruki Murakami. Sótt 6. janúar 2017 af http://time.com/3823189/haruki-murakami-2015-time-100/

Pool, S. (13. september 2014). Haruki Murakami: I‘m an outcast of the literary world. Sótt 6. janúar 2017 af https://www.theguardian.com/books/2014/sep/13/haruki-murakami-interview-colorless-tsukur-tazaki-and-his-years-of-pilgrimage

Myndir

New York Times magazine (21. október 2011). The fierce imagination of Haruki Murakami. Sótt 6. janúar 2017 af http://www.nytimes.com/2011/10/23/magazine/the-fierce-imagination-of-haruki-murakami.html

Haruki Murakami stuff: A Murakami fan blog (7. ágúst 2011). Haruki Murakami’s wife. Sótt 6. janúar 2017 af http://www.haruki-murakami.com/post/7380697162/haruki-murakamis-wife

Please like & share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>

*