Læturðu cortisol stjórna lífi þínu?

Læturðu cortisol stjórna lífi þínu?

Streituhormónið cortisol (ísl. kortisól) er mikill skaðvaldur  í of miklu magni en ofgnótt verður af efninu hjá fólki sem býr við langvarandi streituástand. Í kennslubókinni Understanding motivation and emotion kemur fram að til þess að halda kortisóli í skefjum er nóg að fólki finnist það hafa stjórn á eigin lífi. Gildir þá einu hvort stjórnunin er raunveruleg eða aðeins upplifuð sem slík.

Hátt gildi cortisol í líkamanum skerðir vitsmunaþroska, tilfinningaþroska, hægir á skjaldkirtlinum og þar með efnaskiptum, veikir ónæmiskerfið og eykur líkur á ófrjósemi svo fátt eitt sé nefnt. Þetta eru alvarlegar
hindranir gegn því að njóta lífsins til fullnustu. Ýmislegt virðist jafnvel tengja ofgnótt kortisóls við einhverfu [1] og þunglyndi [2].

Krefjandi en nærandi umhverfi, þar sem við fáum að ráða okkur sjálf er hvati til dáða. Sé það hins vegar svo krefjandi, jafnvel hættulegt, að við höfum ekki svigrúm er það ekki lengur hvetjandi heldur beinlínis streituvaldur. Segja má að slíkt umhverfi sé streituvaldur þar til fólki heppnast að ná aftur stjórn á eigin lífi.

Hvort sem aðstæður eru hvetjandi eða hættulegar sendir drifkerfið (sympatíski hluti sjálfvirka taugakerfisins) líkamanum boð um að losa um orku og framleiða adrenalín og kortisól (viðbrögðin berjast eða flýja), sem býr okkur undir átök með því að hraða hjartslætti og andardrætti og hækka blóðþrýsting. Í eðlilegum aðstæðum tekur sefkerfið (parasympatíski hlutinn) við þegar „hættan“ er liðin hjá, stöðvar framleiðslu streituhormónanna og hægir á líffærunum á ný. Þegar hægir á framleiðslu kortisóls minnkar að sama skapi streitan. Hvíldartímabilið sem kemur í kjölfarið nota líffærin til þess að safna nauðsynlegri orku.

Ofgnótt kortisóls er þroskahamlandi

Stundum líður hins vegar „hættan“ ekki hjá, líkt og í löndum þar sem stríðsástand ríkir eða í fjölskyldum þar sem er meðvirkni eða virk fíkn. Við langvarandi streituástand getum við sagt að heilinn syndi beinlínis í kortisólsundlaug og getur sefkerfið misst getuna til að stöðva framleiðsluna á hormóninu. Með öðrum orðum, þegar einstaklingur upplifir að hann nái ekki stjórn á aðstæðum í eigin lífi heldur líkaminn áfram að framleiða kortisól og streitan heldur áfram að aukast, oft með skelfilegum afleiðingum.

Niðurstaðan er að mikið er í húfi að ná og hafa eins mikla stjórn á eigin lífi og hægt er til að lágmarka magn cortisol í líkamanum. Ekki hafa allir forsendur til að komast úr streituvaldandi og hættulegum aðstæðum en oftast eru þó til einhverjar leiðir til slökunar og valdeflingar. Til dæmis er hægt að ná ótrúlegri tækni í bæn og hugleiðslu, jafnvel í erfiðum aðstæðum, og loks er það álit sumra að stjórn á eigin hugsunum sé ein mesta valdefling sem til er.

Heimild: Reeve, Johnmarshall (2009). Understanding motivation and emotion (5th ed.). Hoboken: John Wiley & Sons, Inc.  (Arousal and Stress, bls 378). Þýtt og staðfært: Ása Sigurlaug Harðardóttir.

Please like & share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>

*