Samræður eru góð kennsluaðferð

Samræður eru góð kennsluaðferð

Samræður eru kennsluaðferð í framhaldsskólum
Samræður efla framhaldsskólanemendur. Samt er það svo að samræðulistin er aðeins lítill hluti ríkjandi kennsluaðferða. Það er hverjum kennara ánægjuefni að búa yfir færni til að leiða samtal ungmenna um mikilvægt samfélagsmál þannig að allir þori að tjá sannfæringu sína óttalaust. Mörgum nemum eru þetta einmitt minnisstæðustu kennslustundirnar og jafnvel þær sem skilja eftir mesta þekkingu.

Samræður byggjast á spurningum
Kennslufræðin búa yfir fjölmörgum spurnaraðferðum sem geta kveikt góðar samræður í kennslustundum. Kennarinn spyr spurninga sem geta verið lokaðar („já / nei“ spurningar) eða opnar. Þær geta verið einfaldar, flóknar, einræðar eða margræðar. Yfirleitt fylgja spurnaraðferðir mynstrinu sem sýnt er hér (1):

Samræðuferlið

Hægt er að blanda saman einstaklingsmiðun og hópastarfi og nota fleiri en eina spurnaraðferð í sömu kennslustundinni. Samræður að hætti Sókratesar – ég vil nefna þær Sókratesarhring á íslensku – eru áhrifaríkar og hafa verið í mikilli þróun víða í Bandaríkjunum og Evrópu (1, 2). Góðar samræður í kennslustund eiga í raun að líkjast spjalli við fjölskylduna eða góða vini (3).

Samræður efla nemendur
Með samræðum þjálfast nemendur í að tjá sig, rökstyðja, lýsa skoðunum, tilfinningum og viðhorfum. Félagsleg færni eykst, ungmennin læra að hlæja saman, láta sér líða vel og finna til samkenndar. Lausnamiðuð viðhorf verða ríkjandi (1) og síðast en ekki síst móta samræðurnar lýðræðislega hugsun (4) og styðja við læsi (5) sem eru tveir grunnþættir menntunar samkvæmt nýrri aðalnámskrá (6).

Krefjandi kennsluaðferð
Ef samræður hafa þetta marga kosti, af hverju eru þær þá ekki algengari í kennslu? Fyrst ber því til að svara að þær reyna á marga eiginleika kennarans. Hann þarf að fylgjast einbeittur með, hafa góðar spurningar tilbúnar og reyna að sjá fyrir hvert umræðurnar þróast. Við þetta bætist reynsluleysi og þekkingarleysi á þeim fjölda spurnaraðferða sem til eru (5). Ýmsir meta stöðuna þannig ekki sé tími fyrir samræður vegna mikils námsefnis[i]. Að sumra mati eru gamlar hefðir um hlutverk kennara og nemenda hindrun og einhverjir óttast að missa tök á aðstæðum þegar þeir leyfa samræður (1). Aftur á móti er það álit framhaldsskólanema að kennslustundir þar sem kennarinn er í aðalhlutverki veki ekki áhuga þeirra nema að takmörkuðu leyti og aðspurðir segjast sumir upplifa að kennarinn njóti „sín bara svo mikið uppi hjá töflunni“ (7).

Við þurfum að þora
Vinsældir hjá nemendum eru eitt af því sem við kennarar merkjum okkur með og hefur áhrif á sjálfsmynd í starfi. Tilraunir með nýjar kennsluaðferðir kunna að valda tímabundnu óöryggi og við óttumst jafnvel að vera óvinsæl á meðan. Hins vegar er ekki hægt að verða góður í neinu nema byrja á því að gera það í fyrsta sinn. Þá höfum við einmitt ekki reynsluna til að spila úr. Þar að auki veldur tímaskortur því að skoðanaskipti eru sjaldgæf meðal framhaldsskólakennara. Okkur stendur því ekki annað til boða en að undirbúa okkur eins vel og hægt er og byrja að prófa samræður í kennslustofunni. Mín reynsla er að óhætt sé að segja nemendum frá því að verið sé að prófa nýjar aðferðir. Þeir finna að þeir eru þátttakendur í tilraun og minna máli skiptir þegar út af ber í kennslunni. Án undantekninga skapast samvinna kennara og nemenda um að stefna í átt að árangri.

 

 

[i] Hale, M.S., City, E.A. (2014). The Teachers Guide to leading student-centered discussions – Talking about texts in the classroom.

 

Please like & share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>

*