Um mig

Ása - minniHver er Ása Sigurlaug?

Kennari í Menntaskólanum í Kópavogi, landfræðingur að mennt. Kópavogsbúi í föstu sambandi með Arngrími Þór Gunnhallssyni, framhaldsskólakennara og móðir Ingerar Erlu Thomsen (19 ára) og Kristbjargar Hörpu Thomsen (17 ára). Nörður af lífi og sál.   

Umhverfisnörður af hæstu gráðu og gleypi í mig allar upplýsingar um umhverfismál á Íslandi og í heiminum öllum. Það er mín gæfa að umhverfismál eru stór hluti af starfi mínu sem framhaldsskólakennari.

Einlæg áhugamanneskja um texta, málfar, orðaleiki og fallegt tungumál í ræðu og riti hef ég verið allt frá því ég man eftir mér sitjandi á eldhúsgólfinu að læra utanað ferskeytlur Sveinbjarnar Beinteinssonar. Ég er elst af þremur systrum og nokkrum fóstursystkinum, uppalin í Skorradal í Borgarfirði.

Samskipti í skólastarfi eru mér hugleikin og er ég alæta á umræðu og skrif um góða kennsluhætti og árangur í skólastarfi. Ungt fólk í framhaldsskólum er skemmtilegasti samfélagshópurinn og ég lít á það sem forréttindi að fá að njóta samvista við það í starfi mínu.

Heilsa líkama, hugar og sálar er enn ein ástríða mín. Ég hef notað mat og bætiefni til að lækna mig af gigt og orkuleysi og held mér hraustri með líkamsrækt, sjósundi, dansi og íhugun. Valdefling kvenna hefur líka æ meiri ítök í mér. Ég trúi því að heimurinn verði betri með því að konur um allan heim fái að eiga það persónulega vald yfir lífi sínu sem þeim er réttbært, þ.e.a.s. að þær stjórni líkama sínum og lífi sjálfar og fái menntun og tækifæri til jafns við karlmenn. Það er ábyrgðarhluti að vera kennari og hafa grunnþáttinn jafnrétti á bak við eyrað í hverri kennslustund.

Ég lauk mastersnámi í landafræði í Frakklandi árið 2001 og síðar uppeldis- og kennslufræði við HA. Ásamt fjölmörgum ráðstefnum og námskeiðum sem ég hef tekið þátt í, er ég stolt af að hafa lokið DELF BII, alþjóðlegu prófi í frönsku, sem er eitt af skemmtilegustu tungumálum heimsins.

Ég hef starfað á nokkrum eðalvinnustöðum með frábæru fólki og nefni hér ferðaskrifstofuna Iceland Travel, Safnahús Borgarfjarðar, teiknistofuna Landlínur í Borgarnesi, Skátana, Ferðaþjónustuna Indriðastöðum og gistiheimilið Borgarnes Bed & Breakfast.

Ég er í umhverfis- og spjaldtölvunefndum MK, auk þess að vera virkur félagi í PowerTalk. Ég hef setið í stjórnum félagasamtakanna Margmenningar í Borgarnesi og Heimilis og skóla, auk þess að hafa unnið með grasrótarsamtökunum Heilsufrelsi og Lifðu lífinu.


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>

*